Laugardaginn 29. mars, 2003 - Lesbók

Tveir svartir sauðir, íbúi sýndarveruleikans og listræn kortagerð - mynd 1  Tveir svartir sauðir, íbúi sýndarveruleikans og listræn kortagerð - mynd 2  Tveir svartir sauðir, íbúi sýndarveruleikans og listræn kortagerð - mynd 3 
Tveir svartir sauðir, íbúi sýndarveruleikans og listræn kortagerð - mynd 4 

[ Smelltu til að sjá stærri mynd }

 

MYNDLIST - Nýlistasafnið

Tveir svartir sauðir, íbúi sýndarveruleikans og listræn kortagerð

HLUTABRÉF Í SÓLARLAGINU, SÝNING HELGUÐ DEGI SIGURÐARSYNI

Til 7. apríl.

 

Svartir sauðir þá og nú

Nýlistasafnið hefur á undanförnum árum sinnt af natni listamönnum eins og Megasi, Rósku og nú Degi Sigurðarsyni, haldið listþing og sýningar. Nú stendur yfir listþing og sýning um Dag Sigurðarson ljóðskáld sem lést fyrir aldur fram. Dagur var ötull við myndgerð af ýmsum toga, dúkristur, málverk og teikningar prýða sýninguna og einkennast flestar þeirra einna helst af einlægni listamannsins en margar eru fallegar og bera hæfileikum vitni sem hefðu getað þroskast betur hefðu þeir verið ræktaðir af elju. En Dagur var auðvitað fyrst og fremst ljóðskáld, sem skrifaði frá hjartanu og ljóð hans eru tilfinninganæm og falleg. Í Nýlistasafninu má líka sjá nokkur ljóða hans og bréfa auk myndbanda og tónlistar sem gerð hefur verið við ljóðin. Dagur var uppreisnarmaður, í stöðugri uppreisn gegn borgaralegum gildum, hann uppfyllti allar klisjurnar um misskilda, drykkfellda, hjartagóða listamanninn en hann sjálfur var auðvitað engin klisja né líf hans. Í dag eru menn honum líkir ekki lengur til, listamenn eru löngu hættir að drekka sér til óbóta, þeir vinna bara frá níu til fimm og enginn talar um innblástur lengur. Klisjan um líf þeirra er í mesta lagi tilefni til háðs.

Tóm steypa?

Háð er einmitt rauði þráðurinn í verkum Ásmundar Ásmundssonar sem nú sýnir í Gallerí Hlemmi. Klisjan um listamanninn hefur oft verið inntak verka hans, til dæmis sýndi hann eitt sinn frystikistu fulla af áfengi og kallaði hjálpartæki listamannsins.

Áhugavert er að skoða sýninguna um Dag í samhengi við sýningu Ásmundar, það er líkt og einlægnin og kaldhæðnin kallist á en kannski eiga þeir tveir þó meira sameiginlegt en virðist við fyrstu sýn. Samtíminn býður ekki upp á möguleikann á listamannalífi eins og lífi Dags lengur, - en er það afstaða Ásmundar sem við tekur eða er hún andstæðan? Það má telja verkum Ásmundar það hiklaust til tekna að erfitt er að gera upp við sig hvort er. Eins og Dag þá dreymir Ásmund, eða listamanninn sem hann leikur, um frægð og frama. Hann hefur reynt að gera sýnilega þá oft nokkuð vonlausu baráttu þeirra sem helst hugsa um myndlist í formi nafna á galleríum, kúratorum og greinum í tímaritum. Í einu verka sinna hefur Ásmundur til dæmis myndgert þá athöfn að míga utan í vegg, líkt og allt sem hann gæti nokkurn tíma afrekað á listabrautinni væri að vitna í verk annarra.

Verk Ásmundar hafa stundum einkennst af aulahúmor sem er afar misfyndinn, sumt er í ætt við Jackass-húmorinn ameríska. List hans ber einnig veru hans í Bandaríkjunum nokkuð vitni, oft virðist um eina hugmynd að ræða sem skellt er fram án þess að hún sé unnin eða dýpkuð frekar, en bandarískir listamenn eiga slík vinnubrögð til í meira mæli en evrópskir kollegar þeirra.

Nú sýnir Ásmundur innsetninguna Steypa í Gallerí Hlemmi. Steypa hefur auðvitað bæði sína bókstaflegu merkingu og svo merkinguna bull og vitleysa, en oft er sagt um eitthvað í dag að það sé tóm steypa. Það er alþekkt að myndlist sem annað er misgóð og vissulega margt þar sem betur mætti fara, klisjur á borð við þessa breyta litlu þar um.

Ásmundur gengur hreint og beint til verks hér sem áður og hefur látið fylla galleríið af steypu, auk þess sýnir hann á myndbandi hvernig það fór fram. Skjárinn sem sýnir myndbandið er að auki hálfkaffærður í steypu. Þar sjást þrjár bikiniklæddar stúlkur hella steypunni á gólf gallerísins. Myndbandið er fyrirsjáanlegt og langdregið í hæsta máta, eftir nokkrar sekúndur hefur áhorfandinn áttað sig á hvað það sýnir og ekkert kemur á óvart. Bikiniklæðnaður stúlknanna vísar hér í klámiðnaðinn að sögn Ásmundar, reyndar á afar prúðmannlegan og saklausan hátt. Líklega er hann með því að vísa til þess að listin og klámiðnaðurinn eigi sitthvað sameiginlegt, þar gangi margt yfirborðskennt kaupum og sölum, önnur gömul sannindi og klisja.

Ásmundur hefur í list sinni ítrekað reynt að stinga á kýlum sem er þarft verk. Hann deilir m.a. á háæruverðugleika listarinnar og gerir ekki síst grín að listamanninum sjálfum. Líkt og Dagur leitast hann við að vera einhverskonar enfant terrible, rugla íhaldssama góðborgarana í ríminu. En ef verk hans missa marks verða þau ekkert nema enn ein sjálfhverf innsetningin, ætluð þeim sem hlæja með án þess að spyrja hvað búi að baki. Yfirborðslegar tilvísanir í listasöguna og fortíðina og ýmis fyrirbæri samtímans líkt og klámiðnaðinn segja fátt ef þær eru ekki rökstuddar. En svo ég víki aftur að Degi og spurningunni um andstæður eða sjálfstætt framhald þá er það líklega það síðarnefnda sem hefur yfirhöndina, Dagur hefði fílað verk Ásmundar.

Rauður snjór

Í sýningarskrá um Serge Comte er honum lýst sem vafrandi borgara í sýndarveruleika tölva. Það er einmitt tækniheimur tölva og Netsins sem er jarðvegur verka Serge sem sjá má í Nýlistasafninu ásamt sýningunni um Dag. Hann fjallar um tölvuna sem bútar ljósmyndir niður í agnarsmáar einingar, ferninga, tungumál Netsins, sundurslitin orð, merkingu eða merkingarleysi. Serge sýnir einnig tvær myndraðir sem minna á skuggamyndir en í sýningarskrá kemur fram að myndirnar eru teknar á minniskubb. Texti í sýningarskrá fylgir öðru verkinu, Rougeneige eða Rauður snjór. Hann birtir óljósar myndir af af einstaklingum í nútímaþjóðfélagi sem einkennist af neyslu, ofbeldi og tilfinningakulda og það er ekki laust við að listamaðurinn heillist að einhverju leyti af þessum sundurslitna heimi. Myndirnar sem varpað er á vegginn sýna svo að nokkru leyti það sem textinn fjallar um. Myndröðin 4x4 er öllu óljósari. Serge sýnir líka myndir úr hamaperlum líkt og börnin leika sér oft að. Myndir Serge eru stærri en þær sem börnin gera oftast, hér skapa aðskildar perlurnar myndir af andlitum sem leysast upp í aðskilda ferninga þegar nær kemur, líkt og rafrænu myndirnar sem þær eru án efa unnar eftir. Hann sýnir einnig verk úr legókubbum en áhrifamesta verk sýningarinnar er post-it veggmyndin, þar sem auðir minnismiðar mynda eins konar landslag. Í því verki birtist einna helst sú sundurslitna heimsmynd og leitin að merkingu sem listamaðurinn leitast við að birta áhorfandanum. Þessi heimsmynd kemur þó ekki ókunnuglega fyrir sjónir enda hefur hún verið til staðar um nokkurt skeið.

Alistair Macintyre

Frá ystu brún hins sýnilega heims nefnir Macintyre sýningu sína í sal félagsins Íslenskrar Grafíkur baka til í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu. Þetta er þriðja sýning hans hér á landi en áður hefur hann sýnt í Gerðarsafni í Kópavogi 1996 og í Hafnarhúsi árið 2000. Hann er í hópi þeirra útlendu listamanna sem sækja efnivið í verk sín meðal annars til íslenskrar náttúru en hér sýnir hann verk sem eiga rætur sínar að rekja til fjalla bæði hér á landi og í Bretlandi. Verk Alistairs eru stór, óvenjuleg og áferðarfalleg. Aðferðin við gerð þeirra er frekar flókin, hann tekur vaxmót af yfirborði náttúrunnar, nú sérstaklega af stöðum sem sýna upplýsingar sem notaðar eru við kortagert. Útkoman sýnir svo hvernig hann hefur látið járn í formi þessara vaxmóta ryðga ofan í stórar pappírsarkir fyrir tilstilli ísmassa sem bráðnar. Myndirnar eru fallegar og stærðin gerir þær áhrifamiklar. Sérstaklega í þeim verkum þar sem tölur koma fram fær áhorfandinn tilfinningu fyrir einhvers konar listrænni fornleifafræði. Þessi verk eru að einhverju leyti byggð á tilviljunum, minna til dæmis á tvívíð og þrívíð náttúruþrykk Jóhanns Eyfells. Hér er aðferðin sjálf þó tiltölulega flókin og listamaðurinn stjórnar útkomunni að svo miklu leyti að slagkraftur verkanna fer að nokkru leyti forgörðum, tilviljanakennd fegurð náttúrunnar víkur fyrir skreytikenndum formum listamannsins. Allt um það eru verkin óvenjuleg, forvitnileg og lifandi með sínum dularfulla ryðgróðri sem einna helst minnir á mosaskófir.

Ragna Sigurðardóttir


© Morgunblaðið, 2003