MYNDLIST - Galleri@hlemmur.is

Uppfinningalist

BLÖNDUÐ TÆKNI HELGI HJALTALÍN EYJÓLFSSON OG PÉTUR ÖRN FRIÐRIKSSON

Opið fimmtudaga-sunnudaga frá kl. 14-18. Til 3. febrúar.

 

Uppfinningalist - mynd

 

Fenjadreki þeirra Helga og Péturs er óvenjulegt farartæki.

 

ÞEGAR ég var að alast upp á Akranesi var þar starfandi uppfinningamaður. Við strákarnir gengum gjarnan framhjá húsinu hans á leið í og úr skóla og í hvert skipti sem maður sá hann að bjástra við eitthvað úti á plani fékk maður fiðring í magann og vonaðist til þess að sjá þarna einn daginn fullbúna geimskutlu, tímavél eða eitthvað enn stórkostlegra.

Þessi minning kom upp í hugann þegar ég gekk inn á sýningu myndlistartvíeykisins Helga Hjaltalíns og Péturs Arnar sem vinna sínar sýningar undir yfirskriftinni Markmið, en þetta er sjötta Markmiðssýningin þeirra á aðeins 11/2 ári.

Á sýningunni er ýmislegt sem getur flokkast sem uppfinningalist, t.d. fenjadreki í fullri stæð og sérsmíðað geymslubox til að setja á toppgrind á bíl.

List þeirra hefur reyndar verið kölluð strákalist sem kemur ekki á óvart. Verkin eru þess eðlis, eins og allt mögulegt og ómögulegt dót verði þeim að efniviði í vélar eða aðrar uppfinningar sem þeir síðan gera tilraunir með úti á víðavangi.

Þetta sést vel á myndbandi sem gengur á sýningunni en þar sjáum við listamennina við tilraunir sínar og ekki gengur þar alltaf allt að óskum. Einhverjir gætu kannski túlkað sýninguna sem tilraun listamannanna til að færa leikaraskap og strákalist upp á æðra plan undir merkjum nútímamyndlistar en því fer fjarri að verkin séu upphafin, það er frekar látleysi sem einkennir uppstillinguna.

Öll verkin hafa tilvísun í hreyfanleika og ferðalög. Manni dettur helst í hug að þeir Pétur og Helgi hafi sett sér það "markmið" að fara eitthvað langt í burtu og koma kannski aldrei aftur til baka og að þessar sýningar og tilraunamennska séu aðeins undirbúningur undir það. Þannig má skoða sýninguna sem myndlíkingu fyrir leit manna að tilgangi lífsins og verður tilefni vangaveltna um stefnu fólks í lífinu, hvert sé "markmiðið". Það er jafnframt alþekkt hugmyndafræði í ýmsum trúarbrögðum að lífið hér sé aðeins undirbúningur undir ferðalag í annan heim og kannski er það það sem listamennirnir ýja hér að.

Það að sjá eina markmiðssýningu hefur kannski ekki svo mikið að segja en þegar sýningarnar eru orðnar sex og þær skoðaðar í samhengi vex gildi "Markmiða" og maður kemst ekki hjá að spyrja sig hvort eitthvað stórmerkilegt sé að gerast eða hvort þeir séu bara að leika sér, strákarnir!

Þóroddur Bjarnason