Nú er ég búin að brjóta og týna:

 

Hvaða merkingu ber afskorið horn?  Hver er tilgangur þess og samhengi eftir að það hefur verið skorið af því höfði sem léði því merkingu.  Hvaða merkingu bera þau stórfurðulegu plastfyrirbæri sem nútíma foreldrar ryksuga upp af gólfum sínum.  Veruleikinn er merkingarlaus þar til mennirnir hafa merkt hann.  Börnin fæðast með þessari merkingaráráttu, leggja merkingu í snifsi , spýtu, plastskrímsli, horn, legg og skel.  Íslenska barnið  hefur í margar aldir gefið hornunum merkingu bústofns.  Í nútíma gullastokki hefur hornið verið rúið sögulegu, þjóðlegu inntaki sínu, þekkingarleysið gerir barnið frjálst undan gömlum merkingum og gildum bændasamfélagsins.

Listamaðurinn setur sig í spor barnsins og losar hlutina úr lærðu samhengi. Leikurinn er forsenda sköpunar... í leiknum getum við orðið ómálga, losnað úr fangelsi orðanna, getum tengt yfir landamæri merkingar, gilda og tíma.

Leikur Ólafar Nordal felst í því, að setja plast inní lífið og líf  inní plastið.  Samruni náttúru og menningar er að verki allt í kringum okkur og inní okkur, einkennir tímana.  Einu sinni sundurgreindum við í gríð og erg , skráðum tegundarheiti og héldum að við næðum tökum á veruleikanum.  Núna leggjum við áherslu á það sem sameinar;  frumuna, genin og hina smæstu efnisögn.  Allt er eitt, ber að sama brunni, rennur saman eins og í opnum huga barnsins og listamannsins.

Hér er komin fordómalaus, sprenghlægileg, söguleg sátt í þrennum skilningi. Ekki bara leikfanga tímanna tvenna, heldur líka hins þjóðlega og alþjóðlega og hins lífræna og manngerða eða menningar og náttúru.

            Verkin eru fram borin sem dígítal ljósmyndir.  Ólöf  hefur valið skala verkanna með hjálp tækninnar og breytt eðli þeirra.  Verkin eru ekki lengur skúlptúrar í eiginlegri merkingu, heldur tvívíðar heimildamyndir um gjörninga.  Einmitt þannig upplifir nútímamaðurinn lungann úr veruleikanum.  Okkur berast stöðugt upplýsingar úr hjáveruleikum, eðlisbreyttar í brengluðum skala.  Hvor er þá raunverulegri; hinn hannaði veruleiki eða hinn sem gægist æ sjaldnar fram, þá helst þegar við fæðumst, elskumst og deyjum.