Fréttatilkynning

Gjörningaklúbburinn á Hlemmi 

Laugardaginn 8. desember, kl.17, opnar Gjörningaklúbburinn / The Icelandic Love Corporation sýningu á nýjum verkum í gallerí@hlemmur.is, Þverholti 5. 

Síðasta sumar dvaldi Gjörningaklúbburinn í gestavinnustofu í Finnlandi. Þar gerðust dularfullir hlutir sem meðlimir klúbbsins eru enn að vinna úr. Þar komust þær meðal annars í kynni við fjölfróðan svarklæddan Íra, Francis McKee, sem hóf að skrifa vafasamar sögur um stúlkurnar. Hér birtist brot úr einni þessara sagna:,

Sigrún sat við opinn eldhúsgluggann og prjónaði.  Útundan sér sá hún hvar lítil dökk þúst, laumaðist út úr kofa nokkrum sem stóð þar skammt frá, og hélt í átt til skógar.  Hún lagði prjónana varlega frá sér og teygði sig eftir haglabyssunni. Þegar þústin var í hæfilegu færi frá glugganum, sveiflaði hún upp vopninu og orgaði, “stans, þú þarna!”.

Refurinn stirnaði í fótsporunum, steinhissa.  Fjaðrir stungust út út munnvikunum, og þrátt fyrir þessa slæmu stöðu, sleikti hann útum.  “O, ég þekki þig of vel Sigrún.  Ég efa það að þú munir taka í gikkinn” sagði hann lágt.  Þegar hann snerist á hæli og ætlaði að fara, heyrði hann háan smell.  Hann stóð augliti til auglitis við Jóní,  sem hafði tekið öryggið af skammbyssunni og var tilbúin að skjóta.

“Smith + Wesson, ekki satt?”, spurði refurinn

“Gæti verið” svarar Jóní.

“Eða ekki”, segir Eirun sem hafði læðsta aftan að refnum og þrýsti staf inní loðið ’ bakið á honum.  “Upp með hendur!”

Á næsta ári kemur út bók með fleiri slíkum sögum og áður óbirtum myndum frá ferli klúbbsins, sem nú er að hefja sitt sjöunda starfsár. 

Gjörningaklúbbinn skipa myndlistarmennirnir Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir. Þær útskrifuðust allar úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1996 og stunduðu framhaldsnám í Berlín, Kaupmannahöfn og New York en eru nú allar búsettar á Íslandi.

Galleríið er opið fimmtudaga til sunnudaga  frá 14-18 og stendur sýningin til 6. janúar 2002.